Samtök á sviðum nýsköpunar og fötlunar efna til samstarfs
Að undanförnu hefur verið unnið að mótun verkefnis sem miðar að því annarsvegar að auka möguleika fatlaðs fólks til að starfa við nýsköpun og hinsvegar efla nýsköpun með þátttöku þessa stóra hóps. Nú hefur undirbúningshópur tekið til starfa og kynnt skýrslu verkefnisins fyrir ráðherrum.
Sprottið af rannsóknarverkefni
Upphaf verkefnisins má rekja til þess að Stefan Hardonk, lektor í fötlunarfræðum við HÍ, vann rannsóknarverkefni ásamt nemendum sínum, sem laut að könnun á möguleikum og áhuga fatlaðs fólks á þessu sviði. Í kjölfarið hófst verkefni sem styrkt var af HÍ vegna samfélagsvirkni. Settar voru upp vinnustofur með aðkomu fatlaðs fólks; aðgreindra vinnustaða; vinnumarkaðsúrræða fyrir fatlað fólk og starfandi frumkvöðlum. Einnig var samráð við félagasamtök. Annars vegar á sviði fötlunar; Öryrkjabandalag Íslands, Þroskahjálp, Átak og Hlaðvarp um mannréttindi fatlaðs fólks; og hinsvegar á sviði nýsköpunar; Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna og KVENN.
Augljós ávinningur nýstárlegrar samþættingar
Rannsóknin leiddi í ljós mikinn áhuga fatlaðs fólks á þátttöku í nýsköpunarverkefnum og jafnvel til að hefja eigið frumkvöðlaverkefni. Félögin töldu sig strax greina augljósan ávinning í samþættingu þessara tveggja ólíku sviða; málefna fatlaðs fólks og nýsköpunar, og að full ástæða væri til að láta reyna á þessa nýju aðferð. Niðurstaðan varð því sú að stofna samráðshóp til að koma verkefninu af stað.
Skýrsla kynnt
Samráðshópurinn, ásamt Stefan Hardonk, hélt því áfram og mótaði verkefni í þessum tilgangi. Samin var skýrsla; „Nýsköpunarvirkni fatlaðra einstaklinga“, þar sem verkefnið er reifað í fjórum tillögum. Skýrslan hefur nú verið kynnt fyrir þremur ráðherrum; ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra; félags- og barnamálaráðherra og forsætisráðherra. Fyrstu undirtektir þeirra lofa góðu, og verður málinu fylgt eftir að loknum kosningum. Verkefnið er reifað í fjórum tillögum:
Markmiðin fjögur
- Miðlun upplýsinga um þátttöku í nýsköpunarverkefnum. Hér er gert ráð fyrir að sett verði á fót rafræn upplýsingamiðlun; annars vegar um möguleg atvinnutækifæri fatlaðs fólks í nýsköpunarumhverfinu og hins vegar um áhugasama fatlaða frumkvöðla. Þessi miðlun er kjarnaþáttur verkefnisins, og krefst nokkurs undirbúnings. Aflað verður álits Persónuverndar og unnið í samræmi við það. Utanumhald og kynning kerfisins verður á hendi Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna og KVENN.
- Stuðningur á vinnustað nýsköpunar fyrir fatlað fólk og vinnuveitendur. Markmiðið er að tryggja sem best stuðning sem skilar árangri. Virkjuð verða úrræði sem þegar eru fyrir hendi, á borð við atvinnu með stuðningi og aðgreinda vinnustaði. Fötlun er af margvíslegum toga og mikilvægt að störfin og stuðningur vegna þeirra séu við hæfi til að tryggja starfsánægju og starfsárangur.
- Fræðsla og ráðgjöf. Annars vegar þarf að sporna við fordómum og þekkingarleysi og upplýsa um þætti sem varða vinnu með fötluðu fólki. Hinsvegar mun fræðslan snúa að möguleikum innan nýsköpunar; styrkjakerfi; hugverkarétti; markaðssetningu o.þ.h.
- Mat á stöðu og árangri. Í því felst vöktun verkefnisins og mat á árangri þess, ásamt því að tryggja að sú dýrmæta reynsla nýtist sem aflað er með þessu nýja samstarfi ólíkra sviða. Stefan Hardonk mun halda utan um þennan þátt.
Í samræmi við stefnu og skyldur stjórnvalda
Verkefnið er öflugur stuðningur við stefnu stjórnvalda, og lagalegar skyldur. Samkvæmt 27. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks ber stjórnvöldum m.a. að tryggja fötluðu fólki jöfn tækifæri til starfa; til að sinna sínum áhugamálum og nýta sína hæfileika. Verkefnið er öflug viðleitni til þess. Þá styður verkefnið ekki síður við fyrirliggjandi nýsköpunarstefnu stjórnvalda, sem kveður á um nýtingu hugvits og frumkvæðis til nýsköpunar. Nýleg áföll í þjóðlífinu; fyrst af völdum bankahruns en núna kóvid, hafa leitt í ljós nauðsyn þess að efla nýsköpun sem stoð undir hagsæld þjóðarinnar. Til þess þarf að virkja hugvit og framlag allra; fatlaðs fólks sem ófatlaðs; án mismununar og hvar sem er á landinu.
Framtak félagasamtaka og áhugafólks
Verkefnið er að öllu leyti til komið vegna framtaks áhugamanna og grasrótarsamtaka. Frumkvæðið að því kemur hvorki frá stjórnvaldi né stofnun, þó það stuðli að markmiðum og skyldum hins opinbera. Verkefnið er því þess eðlis að stjórnvöld hljóta að taka því fagnandi og veita því þann stuðning sem þarf til að gera úrræðin virk og öflug.
Framkvæmd
Þó búið sé að móta markmið verkefnisins og samstarfið sem að því stendur, er enn framundan að móta framkvæmdina í ýmsum atriðum. Sú vinna helst augljóslega í hendur við þann stuðning sem stjórnvöld veita þessu framtaki, og mun væntanlega skýrast á næstu mánuðum.
Skýrslan með tillögum að samstarfsverkefni er hægt að skoða hér: